Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Pestagemlingurinn ég!

Það er alveg ótrúlegt hvað ég er lúnkinn við að næla mér í pestir. Í gær fékk ég einhverja kvefpest, með tilheyrandi kvef, hausverk og hor. Og í gærkvöld fékk ég svona hrottalega í magann! Held mig sem sé heima í dag... þar sem ekki er óhætt að fara mikið langt frá you know how.

Treysti á að ég verði komin á lappir á morgun... þoli nebbla ekki að liggja og láta mér líða illa!!!


Úff... Febrúar alveg að klárast!

Þessi mánuður er nú voðalega sjaldan skemmtilegur... þrátt fyrir alla "tilbreytingardaganna", konudagur, bolludagur, sprengidagur og einn leiðinlegasti dagur veraldar... ÖSKUDAGURINN. Tímaskekkja dauðans. Krakkar í grímubúningum, í brjáluðu veðri... ég meina, hvernig er hægt að vera alvöru Lína Langsokkur í kuldagalla???

Og ekki lagar það daginn að þetta vesen með að slá köttinn úr tunnunni er á minni könnu... þoli einfaldlega ekki daginn.

Gerum lífið aðeins einfaldara, höldum öskudaginn í maí eða júní, þar sem krakkarnir eru í minni "flensuhættu", frostbitshættu og fokhættu. Þar sem væri hægt að hafa "kattarsláttinn" utandyra...  Nú eða gera bara skemmtilegan dag í skólanum... grímubúningardagur, skemmtun og allir mega koma með hæfilegt magn af nammi... ekki 30 þrista, 400 sleikjóa og ef einhver búðareigandi er sniðugur, límmiðaörk!!!

Oh, þoli ekki þegar ég er í röfl stuði!!!


Er lífið eins og JóJó???

Það lítur út fyrir að lífið sé eins og Jójó. Bara misjafnt hvað lífið staldrar lengi við uppi í gleðinni eða niðri í vollinu! En einhvern vegin er það samt alveg á hreinu að lífið er ekki endalaus hamingja... þó að Pollýönnu hugsun geti komið sér vel á stundum!

Jákvæðni kemur manni ansi langt... að sjá hálf fullt glas en ekki hálf tómt... að treysta því að við endann á göngunum sé ljós!  Það kemur náttúrulega fyrir á bestu bæjum að jákvæðnistöflurnar klárast... en þá er bara að vera andskotanum fljótari með áfyllinguna!

Nota niðurkaflana til að læra á sjálfan sig, á þá sem eru næstir manni og umhverfið sitt! Öll reynsla gerir mann að betri manneskju... ef maður vill það! 


Breiðuvík

Hroðalegir staðir kalla á hroðalega umræðu. Varla að maður komi einhvers staðar inn þar sem ekki er talað um upplifanir fólks við að sjá fullorðna menn sem enn eru að takast á við það sem gerðist í þeirra lífi þegar þeir voru óharðnaðir unglingar eða bara börn! Umfjöllunin varð til þess að maður skammaðist sín fyrir stjórnvöld landsins, að börn hafi verið tekin af heimilum sínum, sum hver agaleg heimili... en þó töluvert betri en það umhverfi sem tók við.

Sonur minn, á tólfta ári, sat og horfði með mér og pabba sínum í gærkvöldi á Kastljósið... Hann eins og fleirri átti ekki orð, spurði okkur út í allt sem sagt var, trúði ekki eigin eyrum lýsingar á þeirri vonsku sem fór greinilega fram á staðnum. Í miðjum þætti stóð hann þó upp og gat ekki horft á meir.

Það sem kom hvað mest á óvart í þessari umfjöllun var hvað unga fólkið sem við var talað, skilaði heilsteyptum og skilmerkilegum svörum til spyrjenda þáttarins. Þroskuð svör og maður einhvern vegin fylltist stolti yfir unga fólki þjóðarinnar! Þetta er fólkið sem ég hélt að væru horfin í hugsun efnahyggjunar en fáir töluðu um að láta mennina fá greiddar bætur... nema þá í formi hjálpar, sálfræðihjálpar, áfallahjálpar eða hvaða hjálpar sem þeir þurfa á að halda.

Sumir þessara manna hafa komist yfir þetta, líkast til fengið sína hjálp í gegnum fjölskyldur og vini. Aðrir hafa greinilega aldrei fengið neina hjálp...

Eigum við ekki að vona að batnandi þjóð sé best að lifa!?!

Vona að þeir sem sjái um málefni barna af brotnum heimilum séu meðvitaðri um þær hættur sem geta verið til staðar fyrir þessi börn.

Vona að þeir sem taki að sér börn geri það af manngæsku en ekki öðrum kenndum!!!

Ég er enn að reyna að ná tökum á hugsunum mínum... á erfitt með að trúa þeirri illsku sem getur búið í manninum og sprettur upp við það eitt að fá völd.... á erfitt með að trúa því að hægt sé að loka augum fyrir því hvað er í gangi á næsta heimili... á erfitt með að sætta mig við það að börn séu látin sæta andlegu og líkamlegu ofbeldi án þess að fólk láti í sér heyra, bara af því að einhver gæti orðið fúll út í mann... Ef við teljum að barn sé vanrækt, sæti einhvers konar ofbeldi þá er okkur skylt að tilkynna það. Hvað ætlum við að gera ef í ljós kemur að grunsemdir okkar voru réttar? Og við gerðum ekkert??? Er ekki betra að hafa látið í ljós áhyggjur sínar við rétta aðila, að láta þá aðila sem eru að vinna við þessi mál, kanna málin?

Það sem getur gerst er að við höfðum rangt fyrir okkur og við getum því hætt að hafa áhyggjur! EÐA að barnið fær þá hjálp sem það þarf!!!

Við getum líka valið að segja ekkert, látið samviskuna naga okkur að innan... og í versta falli fengið staðfestingu á að við hefðum ÁTT að gera eitthvað!!! Og þá kannski of seint!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband